Fara í innihald

Valdaránið í Íran 1953

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hermenn umkringja íranska þinghúsið í Tehran þann 19. ágúst 1953.

Valdaránið í Íran 1953, kallað valdaránið 28. Mordad í Íran, var valdarán framið gegn hinum lýðræðislega kjörna forsætisráðherra Írans, Múhameð Mossadek, í því skyni að styrkja einveldisstjórn Múhameð Resa Pahlavi Íranskeisara, þann 19. ágúst 1953. Valdaránið var skipulagt af Bretum (undir nafninu Operation Boot) og Bandaríkjamönnum (undir nafninu Operation Ajax).[1][2][3][4]

Mossadek hafði reynt að takmarka yfirráð ensk-persneska olíufélagsins (Anglo-Iranian Oil Company; AIOC) á olíuiðnaði Írans. Þegar AIOC neitaði að gefa eftir kaus íranska þingið að þjóðnýta olíuiðnaðinn og reka erlend stórfyrirtæki úr landi.[5][6][7] Eftir þjóðnýtinguna settu Bretar alþjóðlegt viðskiptabann á íranska olíu til að setja þrýsting á íranska efnahaginn.[8] Í fyrstu hugðust Bretar beita hervaldi til að hertaka Abadan-olíuvinnslustöðina sem Bretar höfðu byggt, en Clement Attlee forsætisráðherra ákvað heldur að beita efnahagsþvingunum[9] til að grafa undan stjórn Mossadeks.[10] Ríkisstjórnir Winstons Churchill og Dwights D. Eisenhower Bandaríkjaforseta ákváðu síðar að steypa írönsku stjórninni af stóli, þótt ríkisstjórn forvera Eisenhowers, Harry S. Truman, hefði verið mótfallin valdaráni þar sem hún óttaðist að slíkt myndi setja slæmt fordæmi.[11] Leyniskjöl sýna að breska leyniþjónustan lék lykilhlutverk í skipulagningu og framkvæmd valdaránsins og að ensk-persneska olíufélagið greiddi um 25,000 Bandaríkjadollara til að múta embættismönnun í aðdraganda þess.[12] Í ágúst 2013, sextíu árum síðar, viðurkenndi bandaríska leyniþjónustan að hún hefði bæði skipulagt og framkvæmt valdaránið, m.a. með því að múta írönskum stjórnmálamönnum og herforingjum og framleiða áróður til að styðja valdaræningjana.[13][14] Bandaríska leyniþjónustan viðurkenndi að valdaránið hefði verið framkvæmt „undir leiðsögn CIA“ og „samkvæmt utanríkisstefnu Bandaríkjanna, skipulagt og samþykkt á æðstu stöðum í ríkisstjórninni“.[15]

Eftir valdaránið var ríkisstjórn mynduð undir stjórn hershöfðingjans Fazlollah Zahedi, sem leyfði keisaranum Múhameð Resa Pahlavi að stjórna með alræðisvaldi. Keisarinn reiddi sig á stuðning Bandaríkjanna til að halda í völd sín.[5][6][7][16] Samkvæmt leyniskjölum CIA sem gerð hafa verið opinber var mörgum helstu glæpaforingjum Tehran borgað fyrir að koma af stað fjöldamótmælum á móti stjórn Mossadeks þann 19. ágúst. Aðrir kónar CIA komu til Tehran í strætisvögnum og trukkum og lögðu undir sig götur borgarinnar.[17] Um 200 til 300 manns voru drepin í átökunum. Mossadek var handtekinn, ákærður og sakfelldur fyrir landráð af herrétti keisarans. Þann 21. desember 1953 var hann dæmdur í þriggja ára fangelsi og síðan settur í stofufangeli til æviloka.[18][19][20] Aðrir stuðningsmenn Mossadeks voru fangelsaðir og sumir teknir af lífi.[7] Eftir valdaránið réð keisarinn sem einvaldur í 26 ár[6][7] þar til honum var steypt af stóli í írönsku byltingunni árið 1979.[6][7][21]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. CLANDESTINE SERVICE HISTORY: OVERTHROW OF PREMIER MOSSADEQ OF IRAN, Mar. 1954: p iii.
  2. Ends of British Imperialism: The Scramble for Empire, Suez, and Decolonization. I.B.Tauris. 2007. bls. 775 of 1082.
  3. Bryne, Malcolm (18. ágúst 2013). „CIA Admits It Was Behind Iran's Coup“. Foreign Policy.
  4. The CIA's history of the 1953 coup in Iran is made up of the following documents: a historian's note, a summary introduction, a lengthy narrative account written by Dr. Donald N. Wilber, and, as appendices, five planning documents he attached. Published 18 June 2000 by The New York Times. https://www.nytimes.com/library/world/mideast/041600iran-cia-index.html
  5. 5,0 5,1 Kressin, Wolfgang K. (maí 1991). „Prime Minister Mossadegh and Ayatullah Kashani From Unity to Enmity: As Viewed from the American Embassy in Tehran, June 1950 – August 1953“ (PDF). University of Texas at Austin. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 12. október 2017. Sótt 25. janúar 2018.
  6. 6,0 6,1 6,2 6,3 Milani, Abbas (1. nóvember 2008). Eminent Persians.
  7. 7,0 7,1 7,2 7,3 7,4 Milani, Abbas (4. janúar 2011). The Shah.
  8. Mary Ann Heiss in Mohammad Mosaddeq and the 1953 Coup in Iran, pp. 178–200
  9. Mohammad Mosaddeq and the 1953 Coup in Iran
  10. Kinzer, All the Shah's Men, p. 3 (In October 1952 Mosaddeq "orders the British embassy shut" after learning of British plotting to overthrow him.)
  11. Kinzer, Stephen. All the Shah's Men. Hoboken, N.J.: John Wiley & Sons, Inc., 2008, p. 3
  12. „How a Plot Convulsed Iran in '53 (and in '79)“. The New York Times. Sótt 5. júní 2010.
  13. CIA finally admits it masterminded Iran's 1953 coup RT News
  14. Saeed Kamali Dehghan; Richard Norton-Taylor (19. ágúst 2013). „CIA admits role in 1953 Iranian coup“. The Guardian. Sótt 20. ágúst 2013.
  15. „In declassified document, CIA acknowledges role in '53 Iran coup“. Cnn.com. Sótt 22. ágúst 2013.
  16. U.S. foreign policy in perspective: clients, enemies and empire. David Sylvan, Stephen Majeski, p. 121.
  17. Zulaika, Joseba (2009). Terrorism: the self-fulfilling prophecy. University of Chicago Press. bls. 139.
  18. Abrahamian, Ervand, Iran Between Two Revolutions by Ervand Abrahamian, (Princeton University Press, 1982), p. 280
  19. Mossadegh—A Medical Biography by Ebrahim Norouzi
  20. Persian Oil: A Study in Power Politics by L.P. Elwell-Sutton. 1955. Lawrence and Wishart Ltd. London
  21. Kinzer, Stephen, All the Shah's Men: An American Coup and the Roots of Middle East Terror, John Wiley and Sons, 2003.