Námið
Rannsóknir
HR
Neon

Forsetalisti

Þeir nemendur sem bestum árangri ná á hverri önn eiga möguleika á að komast á forsetalista og fá skólagjöld næstu annar niðurfelld.

Til þess að vera gjaldgengir á forsetalista þurfa nemendur að ljúka að minnsta kosti 30 einingum á önn. Sérreglur vegna nemenda í iðnfræði og byggingafræði má sjá á síðu deildar. Í útreikningi á meðaleinkunn námskeiða gilda eingöngu próf sem tekin eru í fyrsta sinn í tilteknu námskeiði, það er, endurtektarpróf gilda ekki.

Styrkir

Grunnnám

Nýnemastyrkur

Háskólinn í Reykjavík veitir styrk þeim nýnemum sem sýnt hafa framúrskarandi árangur í námi í framhaldsskóla. Styrkurinn nemur skólagjöldum á fyrstu önn námsins. Styrkurinn er veittur nemendum sem hefja grunnnám á haustönn. Handhafar eru valdir af nefnd innan HR. Ekki er sótt um styrkinn heldur er handhöfum tilkynnt það verði þeir fyrir valinu.

Raungreinaverðlaun HR

Háskólinn í Reykjavík veitir raungreinaverðlaun á vorin en þau hlýtur sá nemandi í hverjum framhaldsskóla sem nær bestum árangri í raungreinum á stúdentsprófi. Handhafi raungreinaverðlauna fær skólagjöld niðurfelld fyrstu önnina.

Styrkir fyrir afreksíþróttafólk

Veittir eru allt að þrír styrkir til afreksfólks í íþróttum. Styrkirnir eru veittir nemendum í BSc-námi í íþróttafræði og fá þau skólagjöld í allt að sex annnir að hámarki niðurfelld.

Nýsköpunarsjóður námsmanna

Nýsköpunarsjóður námsmanna útvegar áhugasömum nemendum sumarvinnu við metnaðarfull og krefjandi rannsóknarverkefni. Styrkjum er úthlutað til kennara á háskólastigi, fyrirtækja, rannsóknastofnana eða einstaklinga sem teljast hafa sérþekkingu á ákveðnu sviði til þess að ráða stúdenta til sumarstarfa.
Lesa meira um nýsköpunarsjóð námsmanna

Meistaranám

Forsetastyrkur

Forsetastyrkur (e. dean's selection grant) felur í sér niðurfellingu hluta skólagjalda þannig að nemandi greiðir einungis skólagjöld grunnnáms meðan á meistaranámi stendur að því gefnu að námsárangur sé góður og að námið sé tekið á fullum hraða.

Íþróttafræðideild - Styrkt meistaranám

Samstarf við íþróttasambönd og íþróttafélög. Íþróttafræðisvið HR er með samninga við fjölmörg íþróttasambönd, svo sem KSÍ, HSÍ, KKÍ, Fimleikasamband Íslands, ÍBR, Badminton sambandið og Skíðasambandið. 

Kennarar og nemendur sjá um mælingar á líkamlegri og sálrænni getu íþróttafólksins og veita ráðgjöf um þjálfun. Nemendur hafa möguleika á kostuðum meistaranámsstöðum í samstarfi við þessi sambönd og félög.

Tölvunarfræðideild - Alan Turing styrkur

Nemendur í tölvunarfræði geta fengið styrk sem nemur niðurfellingu allra skólagjalda yfir allt meistaranámið að því gefnu að námsárangur sé góður og námið sé tekið á fullum hraða.

Verkfræðideild

Nemendur sem sækja um meistaranám í verkfræðideild og hafa lokið BSc-námi með góðum árangri, eiga möguleika á forsetastyrk. Styrkurinn getur numið niðurfellingu skólagjald að fullu eða að hluta (nemandi greiðir skólagjöld grunnnáms).

Viðskiptadeild

Nemendur sem sækja um meistaranám í viðskiptadeild og ná bestum árangri í meistaranámi eiga möguleika á forsetastyrk.

Lagadeild

Nemendur sem sækja um meistaranám í lagadeild og ná bestum árangri í meistaranámi eiga möguleika á forsetastyrk.

LOGOS lögmannsþjónusta

LOGOS lögmannsþjónustan styrkir þann nemanda sem hlýtur hæstu samanlagða einkunn úr BA- og ML-námi.

Námssjóður Sameinaðra verktaka

Námssjóður Sameinaðra verktaka veitir námsstyrki til nemenda í verkfræði, tæknifræði og tölvunarfræði við HR sem nema skólagjöldum í HR í eina önn. Umsóknarfrestur er til og með 5. ágúst næstkomandi.

Námsstyrkirnir eru ætlaðir nemendum sem eru að útskrifast með fyrstu háskólagráðu (BSc) og eru á leið í framhaldsnám (MSc eða Phd) í HR eða við aðra háskóla. Einnig geta nemendur á leið á sína lokaönn í tæknifræði sótt um styrk.

Nemendur sækja um með því að fylla út umsóknarformið hér.

Umsóknir eru metnar eftir námsárangri umsækjenda, frumkvæði og áræðni, samkvæmt námsyfirliti, kynningarbréfi og meðmælum. Við mat á umsóknum er einnig litið til þátttöku nemanda í störfum fyrir HR, s.s. félagsstörfum, dæmatímakennslu og kynningarstörfum.

Úthlutun fer fram um miðjan ágúst 2025. Öllum umsóknum er svarað. Hver umsækjandi getur aðeins fengið úthlutun úr sjóðnum einu sinni.

Fyrirspurnir skulu berast á netfangið [email protected].

Hvatastyrkur Landsbankans

Háskólinn í Reykjavík í samstarfi við Landsbankann veitir tveimur nemendum styrk sem hafa annað móðurmál en íslensku og náð hafa góðum árangri í námi í framhaldsskóla. Hlutverk sjóðsins er að jafna aðgengi að námi við HR.  Við val á styrkhöfum er tekið mið af námsárangri auk fjölbreytileika og þátttöku nemenda á öðrum sviðum, t.d. íþróttum, tómstundastarfi og sjálfboðavinnu.  Styrkurinn felur í sér niðurfellingu á skólagjöldum fyrsta árið í grunnnámi. 

 Eftirfarandi gögn þurfa að fylgja umsókn um styrk:

  • Kynningarbréf (hámark 500 orð)
  • Meðmælabréf frá kennara eða náms- og starfsráðgjafa skóla umsækjanda
  • Yfirlit yfir námsferil
Opið er fyrir umsóknir til og með 5. júní 

Senda skal allar umsóknir á [email protected] merkt "Hvatasjóður"

Samfélagssjóður Símans styrkir konur og kvár til náms í tæknigreinum

Samfélagssjóður Símans styrkir fimm konur/kvár sem hefja nám í  tæknigreinum við Háskólann í Reykjavík með greiðslu skólagjalda. Námsstyrkurinn er hluti af fimm ára samstarfsverkefni Símans og HR sem miðar að því að fjölga konum/kvárum í tæknigreinum. Við val á styrkhöfum er meðal annars tekið mið af námsárangri í framhaldsskóla auk þátttöku nemenda á öðrum sviðum, t.d. íþróttum, tómstundastarfi og sjálfboðavinnu. Styrkurinn felur í sér niðurfellingu á skólagjöldum fyrsta skólaárið.

Umsóknarfrestur er til og með 5. júní nk.
Fara efst