Copy

Leiðbeiningar til foreldra leik- og grunnskólabarna

Það er á ábyrgð forráðamanna að börn séu skráð í grunnskóla. Börn sem búa í öðrum sveitarfélögum en Grindavík ætti að skrá í skóla þar sem fjölskyldan býr. Lögheimilisskráning í því sveitarfélagi þar sem fólk hefur aðsetur getur verið forsenda aðgengis að opinberri þjónustu. Þetta gildir m.a. um leikskóla- og grunnskólabörn og verður að leggja sérstaka áherslu á að öll börn á skólaskyldualdri sæki grunnskóla í nærumhverfi sínu. Það er því ráðgjöf Grindavíkurbæjar til íbúa að huga sem fyrst að lögheimilisskráningu.


Börn sem búa í Grindavík geta farið í grunnskóla í Reykjanesbæ en ekki verður skólaakstur frá Grindavík á meðan ótryggt er að búa í Grindavík. Forráðamenn verða þess vegna að sjá um að koma börnum sínum í skóla og heim aftur. Sama gildir um börn sem eru búsett í öðrum sveitarfélögum en óskað er eftir að verði innrituð í grunnskóla í Reykjanesbæ. Í undantekningartilfellum er hægt að sækja um að barn fái að sækja grunnskóla í öðru sveitarfélagi en þar sem það býr. Innritun er þá háð samþykki Grindavíkurbæjar. Grindavíkurbær skipuleggur ekki skólaakstur í slíkum tilvikum.

Þjónustuteymi fyrir Grindvíkinga býður upp á fjölbreytt stuðningsúrræði og ráðgjöf

Þjónustuteymið útvegar Grindvíkingum úrræði til að takast á við afleiðingar jarðhræringanna. Þar má sérstaklega nefna sálfræðiþjónustu fyrir bæði börn og fullorðna sem teymið útvegar í samstarfi við opinberar stofnanir og sjálfstætt starfandi sálfræðinga.

Þjónustuteymið veitir m.a. ráðgjöf vegna skólamála barna og ungmenna, stuðning vegna atvinnuleitar og húsnæðismála.

Þegar óskað er eftir ráðgjöf hjá þjónustuteymi Grindavíkur þarf að senda inn beiðni með rafrænum skilríkjum á vefsvæðinu Fyrir Grindavík á Ísland.is. Einnig er hægt er að hafa samband til að fá frekari upplýsingar í síma 545-0200 á milli 10:30 og 12:00 mánudaga til fimmtudaga eða með því að senda tölvupóst á [email protected]

Fjármála- og efnahagsráðherra heimsótti Grindavík

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, heimsótti Grindavík sl. miðvikudag. Ráðherra segir að ríkisstjórnin muni áfram gera allt sem í hennar valdi stendur til að Grindavík verði aftur það öfluga bæjarfélag sem það var fyrir eldsumbrotin.


Nánar á vef Stjórnarráðsins

Þórkatla langt komin með kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík

Fasteignafélagið Þórkatla hefur gengið frá kaupum á rúmlega 850 fasteignum í Grindavík eða 93% þeirra sem sóttu um. Afhendingar hafa gengið vel og hefur félagið tekið við um 650 eignum. Heildarfjárfesting félagsins til þessa er um 65 milljarðar króna.


Sjá nánar á Ísland.is

Grindavíkurnefnd vinnur að enduruppbyggingu innviða í Grindavík

Í síðustu viku kynnnti Grindavíkurnefnd aðgerðaáætlun vegna viðgerða á innviðum innan þéttbýlis í Grindavík. Aðgerðirnar miða að því að tryggja virkni og öryggi innviða, þar á meðal gatnakerfi, lögnum og opnum svæðum. Markmið aðgerðanna er að stuðla að öflugu atvinnulífi og öruggu samfélagi í Grindavíkurbæ eftir því sem aðstæður leyfa.


Nánar á vef Grindavíkurbæjar

Vel sótt námskeið hjá Dale Carnegie

Um 120 unglingar og ungmenni úr Grindavík sóttu í vikunni námskeið hjá Dale Carnegie. Námskeiðin eru hluti af stærra verkefni sem leitt er af Rauða krossinum í samstarfi við Grindavíkurbæ með styrk frá Ríó Tinto. Verkefnið miðar m.a. að því að efla viðnámsþrótt samfélagsins.


Nánar á vef Grindavíkurbæjar

Rýmingarkort fyrir Grindavík

Uppfærð rýmingarkort fyrir Grindavík voru birt í síðustu viku. Komi til rýmingar í bænum vegna hættuástands verður viðvörun gefin út með sms og hljóðmerkjum frá almannavarnarflautum.


Nánar á vef Grindavíkurbæjar

Grindvíkingur er rafrænt fréttabréf um málefni Grindvíkinga. Markmiðið er að koma á framfæri og vekja athygli á mikilvægum upplýsingum frá stjórnvöldum, stofnunum og Grindavíkurbæ um málefni Grindvíkinga. Ráðgert er að fréttabréfið komi út á 1-2 vikna fresti í lok vikunnar.