Kirkja heilags Ulrich og Afra
Kirkja heilags Ulrich og Afra er kaþólsk kirkja í borginni Ágsborg í Þýskalandi. Hún er pílagrímskirkja í kaþólskum sið og þar hvíla heilagur Ulrich, heilög Afra og heilagur Simpertus.
Saga kirkjunnar
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirrennari kirkjunnar var lítil pílagrímskirkja frá 8. öld, en í henni var heilög Afra grafin og heiðruð. Kirkjan var á þeim tíma fyrir utan Ágsborg og var eyðilögð af Ungverjum. Næsta kirkja var rifin 1466 til að skapa pláss fyrir núverandi kirkju. Framkvæmdir hófust 1467, en hún hrundi í stormi 1474 meðan hún var enn í byggingu. Hún var þá endurreist 1474 og vígð 1500, er Maximilian I keisari setti hyrningarsteininn í. Það átti reyndar að gera kirkjuna veglegri og skreyta hana, en sökum trúaróróa á siðaskiptatímabilinu var öllum slíkum áformum ýtt til hliðar. Í loftárásum 1944 brann turnþakið og gluggarnir eyðilögðust. Viðgerðum lauk 1950. Tveir páfar hafa sótt kirkjuna heim. 1782 sótti Píus VI messu í kirkjunni og 1987 leit Jóhannes Páll II við í kirkjunni.
Innviðið
[breyta | breyta frumkóða]Altaristaflan
[breyta | breyta frumkóða]Háaltarið er eitt mesta listaverk kirkjunnar. Það var smíðað af Hans Krumpers í kringum aldamótin 1500. Hér er um 5 hæða háa altaristöflu að ræða, gerð úr viði og sýnir fæðingu Jesú. Þar fyrir ofan er krýning Maríu mey. Til sitthvorrar handar eru postularnir Pétur og Páll, en efst er himnafaðirinn. Allar fígúrur eru lausar sem listamaðurinn setti inn í rammann. Altaristaflan er einn merkasti gripur í endurreisnarstíl í kirkju í Suður-Þýskalandi. Nokkur stór hliðaraltari eru í kirkjunni sem helguð eru heilagri Afra og heilögum Ulrich.
Grafhvelfing
[breyta | breyta frumkóða]Kirkjan er hvíldarstaður helgra manna, heilagrar Afra, heilags Simpertus og heilags Ulrich.
Heilög Afra var upphaflega heiðin og starfaði sem portkona í Ágsborg. En þegar Narzissus biskup leitaði ásjár hjá henni í ofsóknum kristinna manna, tók hún kristna trú. Fyrir það var hún ákærð og brennd á báli. Heilög Afra er verndardýrlingur Ágsborgar.
Heilagur Simpertus var biskup í Ágsborg í kringum aldamótin 800. Lítið er vitað um hann, en ákaflega líklegt er að Karlamagnús hafi ráðið úrslitum um það að Simpertus fékk biskupsstólinn. Simpertus er sömuleiðis verndardýrlingur Ágsborgar.
Heilagur Ulrich var biskup í Ágsborg á 10. öld. Þegar Ungverjar réðust á Ágsborg árið 955 stjórnaði hann öllum varnaraðgerðum gegn þeim. Ungverjar náðu ekki að vinna borgina, en eyðilögðu nærsveitir, þ.á.m. kirkju heilagrar Afra. Ulrich biskup lét reisa hana á ný. Hann þótti guðhræddur og mildur, og var sjálfur lagður til grafar í nýju kirkjunni, sem eftir það hlaut nafn hans, ásamt nafn Afra.
Orgel
[breyta | breyta frumkóða]Orgel kirkjunnar var smíðað 1608 og sett upp á svalir fyrir ofan innganginn. Pípuhúsinu er hægt að loka með tveim viðarhurðum, en innanverðu á hurðunum eru málverk af himnaför Jesú (vinstra megin) og af Maríu mey (hægra megin).
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirmynd greinarinnar var „Basilika St. Ulrich und Afra“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt febrúar 2010.