Fara í innihald

Cameron Diaz

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Cameron Diaz
Cameron Diaz árið 2010.
Cameron Diaz árið 2010.
Upplýsingar
FæddCameron Michelle Diaz
30. ágúst 1972 (1972-08-30) (52 ára)
San Diego, Kalifornía
Fáni Bandaríkjana Bandaríkin
Ár virk1988-1993 (fyrirsæta)
1994-nú (leikkona)
Golden Globe-verðlaun
Besta leikkona í aðalhlutverki 1999

Það er eitthvað við Mary“ - Tilnefning
Besta leikkona í aukahlutverki 2000
Being John Malkovich“ - Tilnefning
Besta leikkona í aukahlutverki 2001
Vanilla Sky“ - Tilnefning
Besta leikkona í aukahlutverki 2002

Gangs of New York“ - Tilnefning
BAFTA-verðlaun
Besta leikkona í aukahlutverki 2000
Being John Malkovich“ - Tilnefning
Screen Actors Guild-verðlaun
Besta leikkona í aukahlutverki 2000

Being John Malkovich“ - Tilnefning
Besta leikkona í aukahlutverki 2002

Vanilla Sky“ - Tilnefning
AFI-verðlaun
Leikkona ársins 2002
Vanilla Sky“ - Tilnefning

Cameron Michelle Diaz (fædd 30. ágúst 1972) er bandarísk leikkona og fyrrverandi fyrirsæta. Hún öðlaðist fyrst frægð sextán ára gömul seint á níunda áratug 20. aldar sem fyrirsæta eftir að hafa setið fyrir í auglýsingum margra þekktra fyrirtækja og prýtt forsíður tímarita. Diaz skaust upp á stjörnuhimininn þegar hún hlaut eitt aðalhlutverka kvikmyndarinnar The Mask árið 1994 sem varð ein vinsælasta mynd ársins og hlaut hún einnig mikið lof fyrir leik sinn í vinsælum myndum á borð við My Best Friend's Wedding og She's the One.

Við upphaf 21. aldar var Diaz ein þekktasta leikkona samtímans eftir leik sinn í stórsmellunum Það er eitthvað við Mary, Charlie's Angels, og Shrek. Hún var einnig tekjuhæsta leikkonan í Hollywood um árabil. Diaz hefur hlotið fjórar tilnefningar til Golden Globe-verðlauna fyrir leik sinn í myndunum Það er eitthvað við Mary, Being John Malkovich, Vanilla Sky og Gangs of New York.

Cameron Diaz fæddist þann 30. ágúst 1972 í borginni San Diego í Kaliforníu. Hún var annað barn foreldra sinna en hún á eina eldri systur. Fyrir fæðingu hennar ákváðu foreldrar hennar að ef þau eignuðust stelpu ætti hún að heita Cameron en ef þau eignuðust strák ætti hann að heita annað hvort Menachem El Genio eða Sebastian Emilio.[1] Faðir hennar var mælingamaður hjá olíufyrirtækjum í meira en tuttugu ár áður en hann fór á eftirlaun árið 1998. Föðurforeldrar hennar voru Kúbverjar sem fluttust til Bandaríkjanna stuttu eftir að faðir hennar fæddist. Móðir hennar var komin af Englendingum, Þjóðverjum og Indíánum. Þó faðir hennar hafi verið spænskumælandi ólst Diaz upp talandi ensku og lærði aldrei tungumálið af alvöru.[2] Diaz ólst upp í nágrenni við margar mexíkóskar fjölskyldur og hún fann fyrir miklum menningarlegum mun á þeim og Kúbverjum.[3]

Áður en hún byrjaði í grunnskóla flutti fjölskyldan frá San Diego til Long Beach. Hún þótti góður nemandi en eyddi mestöllum tíma sínum í það að spila ruðning og að stympast við strákana. Hún hafði verið mikill aðdándi íþróttarinnar alveg frá barnæsku en faðir hennar hafði látið dætur sínar horfa á leiki til þess að kenna þeim mikilvægi samvinnu.[4] Þegar Diaz var fjórtán ára hóf hún nám við gagnfræðaskólann Long Beach Polytechnic High School. Í skólanum stundaði meðal annars Snoop Dogg nám og Diaz keypti einu sinni kannabis af honum.[5][6] Sem táningur hlustaði hún mikið á þungarokk og var oft erfiður unglingur. Hún kom seinna heim á kvöldin en foreldrar hennar höfðu leyft henni og einu sinni kom hún drukkin frá balli.[7] „Ég skemmti mér mikið sem unglingur“ sagði Diaz í viðtali þegar hún lýsti æsku sinni, „Ég fór mikið á tónleika, út á lífið, drakk mjög mikið af áfengi og keyrði mótorhjól. Þetta var allt mjög gaman“. Á meðan hún var í gagnfræðaskóla eyddi hún miklum tíma með sama fólkinu og sagði að þau hefðu verið eins og fjölskylda: „Strákarnir sem ég var með pössuðu mikið uppá mig af því þeir voru mikið eldri og ég var eins og litla systir þeirra. Þeir hefðu drepið hvern þann sem reyndi við mig“.[8]

Fyrirsætustörf

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirsætuferill Diaz hófst þegar hún var aðeins 16 ára þegar hún fór í prufu hjá tískuljósmyndaranum Jeff Dunas eftir að hann hafði séð hana dansa í teiti í Hollywood og gefið henni nafnspjald sitt. Hún hafði áður fengið mörg tilboð frá svokölluðum útsendurum sem sögðust ætla að gera Diaz að fyrirsætu en hún samþykkti fyrst að fara í prufu eftir að Dumas hafði samband. Faðir hennar tók sér frídag úr vinnunni til þess að hitta Dunas svo hann gæti kynnt sér eins mikið um fyrirsætuiðnaðinn og hægt var áður en hann gat fallist á það að dóttir hans mætti samþykkja boð Dunas. Viku seinna skrifaði hún undir samning við Elite Model Management, sem á þeim tíma var eitt helsta umboðsfyrirtækið í bransanum.[9] Foreldrar hennar veittu henni mikinn stuðning á þessum tíma en kröfðust þess að hún kláraði gagnfræðiskólann, sem hún gerði.

Eftir útskrift frá Long Beach Polytechnic High School, flaug Diaz til Japan og hitti þar myndbandsleikstjórann Carlos de la Torre. Torre leikstýrði auglýsingu sem hún lék í fyrir L.A Gear og féll hún strax fyrir honum. Þau hófu sambúð ári síðar. Á næstu fimm árum ferðaðist hún víða um Evrópu, Mexíkó, Ástralíu, Afríku og Asíu vegna fyrirsætustarfa fyrir stórfyrirtæki á borð við Calvin Klein, Levi's, Coca-Cola og Nivea þar sem hún vann sér inn allt að 2000 bandaríkjadollara á dag. Hún sat einnig fyrir á forsíðu tímaritsins Seventeen í júlí 1990 rétt áður en hún varð átján ára gömul. Ári síðar var hún flutt til Parísar. Aðeins tveimur árum síðar birtist hún í klámmynd sem kölluð var She's No Angel og varð síðar fræg undir nafninu She's No Angel: Cameron Diaz.[10] [11] Þegar hún var 21 árs gömul sá Hollywood-umboðsmaður nokkrar myndir af henni og bað um passamyndir af henni frá Elite Model Management sem hann sendi í kvikmyndaver. Hann bauð henni svo til Los Angeles og fékk hana til að skrifa undir samning við umboðsskrifstofu.

Upphaf leikferilsins: 1994-96

[breyta | breyta frumkóða]

Þó Cameron hefði aðeins unnið sem fyrirsæta áður þá vildi hún að verða kvikmyndaleikkona. Sumarið 1993 var hafinn undirbúningur fyrir nýja gamanmynd. Búið var að ráða hinn efnilega grínista Jim Carrey í aðalhlutverk myndarinnar sem hét The Mask en enn átti eftir að velja leikkonu í aðalkvenhlutverk myndarinnar, Tinu Carlyle. Upprennandi fyrirsætu, Önnu Nicole Smith, sem var best þekkt fyrir að hafa setið fyrir í Playboy ári áður, hafði verið boðið hlutverkið og vildu framleiðendur helst fá hana til að leika Tinu. Einnig var Vanessu Williams boðið hlutverkið. Framleiðendur myndarinnar auglýstu smáhlutverk í myndinni og sótti Diaz um. Hún var ráðin í hlutverk þar sem hún fékk tvær línur í myndinni en var mjög ákveðin í því að næla sér í hlutverk Tinu Carlyle.[12] Eftir fyrstu prufu hennar með Carrey var leikstjóri myndarinnar Chuck Russell sannfærður að hún væri sú rétta fyrir hlutverkið en framleiðendur myndarinnar voru ekki jafn vissir og töldu hana ekki vera nógu reynda sem leikkonu til þess að taka svona stórt hlutverk að sér. Diaz fór tólf sinnum í áheyrnarprufu og Russell hótaði að hætta í myndinni til þess hún fengi hlutverkið sjö dögum áður en tökur hófust. [13][14][15] Diaz sagði í viðtali að hún hefði verið svo taugaveikluð á meðan hún beið eftir fréttum um hlutverkið; að hún hefði hvorki getað borðað né sofið og fengið magasár. Fyrsti tökudagurinn var einnig mjög erfiður fyrir hana þar sem henni var óglatt og hélt hún myndi valda vonbrigðum og verða rekin eins og skot. Stuttu eftir hún var ráðin fór Diaz að sækja leiklistartíma og réð til sín einkaþjálfarann John Kirby. Hún sótti tíma til hans tvisvar á viku í klukkutíma þar sem hann hjálpaði henni með framkomu og aðferð.

Eftir að tökum á The Mask lauk hóf Diaz leit að fleiri verkefnum í von um að fá fleiri hlutverk. Hún fór í prufu fyrir myndina Things to Do in Denver When You're Dead í mars 1994 en var hafnað.[16][17] Þann 27. júlí það ár kom The Mask út í bíóhúsum í Bandaríkjunum og fékk frábærar viðtökur hjá áhorfendum. Diaz hlaut mikið lof gagnrýnenda. Myndin kostaði rúmar 23 milljónir bandaríkjadala í framleiðslu en halaði inn rúmlega fimm sinnum það í tekjur í Bandaríkjunum og voru heildartekjur hennar yfir $350 milljónir.[18] Seinna það ár lauk fimm ára ástarsambandi hennar og Carlos de la Torre en samkvæmt Diaz skildu þau á jákvæðum nótum. „Hann er ein mikilvægasta manneskjan í lífi mínu en það var nauðsynlegt fyrir mig að flytja út og komast að því hver ég er.“[19]

Stuttu eftir að The Mask kom út hlaut hún hlutverk Sonyu Blade í kvikmyndinni Mortal Kombat sem byggð var á samnefndri tölvuleikjaseríu og þurfti hún að sækja tíma í bardagalist fyrir atriði í myndinni. Stuttu áður en tökur hófust þurfti Diaz að hætta við eftir hún úlnliðsbrotnaði á karateæfingu.[20][21] [22] Stuttu seinna var hún þó komin með nýtt hlutverk í lítilli kvikmynd að nafni The Last Supper sem var leikstýrt og framleidd af upprennandi leikstjóra að nafni Stacy Title. Diaz var ráðin í hlutverk Jude sem í myndinni er ein sex frjálslyndra háskólnema sem ákveða að bjóða öfgafullum hægrisinnum í kvöldmat og myrða þá. Myndin, sem var auglýst sem svört kómedía, hlaut litla athygli í kvikmyndahúsum vegna þess hún var aðeins gefin út í takmarkaðan tíma.[23]

Eftir Last Supper fylgdu nokkrar aðrar litlar kvikmyndir eins og She's the One þar sem Cameron lék fyrrverandi vændiskonu sem snýr aftur í líf tveggja bræðra sem hún hafði áður verið með en voru nú báðir komnir í sambönd. Í myndinni verða þeir báðir ástfangnir af henni en þegar Diaz las handritið fannst henni persónan ekki nógu viðkunnanleg til þess að vinna hjörtu þeirra beggja og stakk upp á því að persónan yrði endurskrifuð. Leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar Edward Burns samþykkti og voru víðtækar breytingar gerðar á handritinu fyrir hana. Diaz sagði að hún vildi leika hlutverkið af því hún hefði áhuga á persónum í kvikmyndum sem gerðu slæma hluti af því hún vorkenndi þeim á einhvern hátt. „Mér finnst áhugavert að finna manngæskuna í persónum eins og henni og að reyna að breyta þeim í alvöru manneskjur“.[24]

Sama ár birtist hún í þremur öðrum litlum kvikmyndum: Svartnætti, Höfuð upp úr vatni, og Ást og slagsmál í Minnesota. Í þeirri síðarnefndu lék Diaz á móti leikaranum Keanu Reeves sem á þeim tíma var ein stærsta stjarnan í kvikmyndaheiminum. Áður en myndin kom út sagði Reeves í viðtali að hún væri mjög hæfileikarík og hún „[gæti] farið mjög djúpt inn í hlutverk sitt til þess að lífga næstum því persónuna sína“. Hann sagði einnig að „ef nokkur önnur leikkona hefði leikið hlutverk hennar, þá hefði Freddie (persóna Diazar í myndinni) ekki verið jafn áhugaverð. Hún er sjaldgæf blanda af fegurð og hæfileikum og gerir það mjög létt og skemmtilegt að vinna með henni.“ Í sama viðtali útskýrði hún óhefðbundið val sitt á hlutverkum með því að segja, „Ég veit það er algjör klisja, en ég vil þurfa að reyna á mig í hlutverkum mínum. Það er ekkert mál að leika þessa týpísku kynbombu í venjulegri Hollywoodmynd. Maður fær enga sérstaka reynslu af því og lærir ekki neitt á því sem leikari. Ég stefndi beint í þá átt um tíma en ég vildi það ekki“.[25] Engin af myndum Diazar sem komu út árið 1996 hlaut mikla athygli áhorfenda eða gagnrýnenda og seinna sagði hún í viðtali að hún hafði ekki gert myndirnar í von um að þær fengju miklar tekjur heldur frekar fyrir reynsluna en á þeim tíma var hún komin með tvær aðrar myndir sem hún þurfti að vinna að.

Upprennandi stjarna: 1997-98

[breyta | breyta frumkóða]

Haustið 1996 hóf Diaz vinnu við næstu kvikmynd, My Best Friend's Wedding. Í myndinni lék Diaz aukahlutverk en með aðalhlutverkið fór leikkonan Julia Roberts sem á þeim tíma var ein stærsta kvenstjarnan í kvikmyndaiðnaðinum en það var hún sem valdi Diaz í hlutverkið.[26] Myndin var hennar fyrsta stórmynd síðan hún þreytti frumraun sína í The Mask tveimur árum áður. Meðan á tökum stóð myndaðist mikil vinátta á milli leikkvennanna og lýsti Diaz því svo í viðtali: „Við höfðum það svo gaman á meðan að tökum stóð. Ég var agndofa yfir Juliu. Ég eyddi mikið meiri tíma í því að fylgjast með henni leika heldur en að leika sjálf“. Roberts sýndi henni mikinn stuðning og sagði Diaz hana alltaf hafa verið til staðar þegar hún þurfti á henni að halda.[27] Myndin kom út í kvikmyndahúsum þann 20. júní 1997, fór beint í annað sætið í Bandaríkjunum og tók inn rúmar 22 milljónir bandaríkjadala fyrstu helgina.

Sú síðari af tveimur myndum hennar það ár hét A Life Less Ordinary sem hinn breski Danny Boyle leikstýrði. Þar lék hún á móti Ewan McGregor sem var einnig upprennandi stjarna í kvikmyndabransanum. Myndin var gefin út þann 24. október 1997 í Bandaríkjunum og Bretlandi en fékk litla athygli frá áhorfendum og var aðeins tvær vikur í kvikmyndahúsum þar. Diaz fullyrti samt að hún teldi myndina vera eina af þeim bestu sem hún hafði gert fram að því. „Ég held það sé langt þangað til litið verður á mig sem alvöru leikkonu“ sagði Diaz í viðtali eftir að myndin kom út þegar hún útskýrði af hverju henni hefði ekki verið boðin meiri vinna það ár.[28] Hún kom einnig fram í cameo-hlutverki sem ljóshærð sjónvarpskona í myndinni Fear and Loathing in Las Vegas.

Velgengni hennar árið 1998 gat af sér mikla athygli fjölmiðla og var mikið umtal um hana, ekki bara í blöðum heldur líka á internetinu þar sem hún átti marga aðdáendur. Sama ár var hún einnig útnefnd ein af tíu best klæddu stjörnum ársins af slúðurtímaritinu People þar sem hún var kölluð „nýjasta ást Bandaríkjanna“ og hafði auk þess verið nefnd ein af fimmtíu fallegustu manneskjum ársins nokkrum mánuðum áður.[29] [30]

Það er eitthvað við Mary

[breyta | breyta frumkóða]

Í lok ársins 1997 hóf Diaz vinnu við næstu mynd hennar sem hét Það er eitthvað við Mary. Myndin, sem var í leikstjórn Farrelly-bræðra, skartaði mörgum af helstu upprennandi leikurum í kvikmyndageiranum, þar á meðal Ben Stiller og þáverandi kærasta Diaz, Matt Dillon. Myndin fjallar um mann sem ræður til sín einkaspæjara til þess að hafa uppi á æskuástinni sinni, Mary, sem leikin er af Diaz. Annar leikstjóri myndarinnar, Bobby Farrelly, sagði það hefði verið sjálfsögð ákvörðun að velja hana í hlutverkið af því hún væri svo „sérstök blanda af fegurð, óttaleysi, og frábæru skopskyni. Eins og Grace Kelly“.[31] Myndin kom út í Bandaríkjunum þann 17. júlí 1998, tók inn rúmar 13 milljónir bandaríkjadala fyrstu helgina sína og lenti í fjórða sæti. Mjög jákvætt umtal í blöðum, sjónvarpi og á veraldarvefnum varð til þess að myndinni fór að ganga mjög vel í kvikmyndahúsum og eftir átta vikur komst hún í fyrsta sætið. Myndin var sýnd í kvikmyndahúsum í heilar tuttugu og fjórar vikur og aflaði yfir 300 milljóna bandaríkjadala á heimsvísu.[32]

Af öllum leikurum í myndinni hlaut Diaz mestu athyglina og sagði einn gagnrýnandi hún hafi verið „meira ljómandi en nokkru sinni fyrr“.[33] Hún var einnig tilnefnd til Golden Globe-verðlauna fyrir bestu leikkonu í gamanmynd. Þetta voru fyrstu virtu verðlaunin sem hún hafði þá verið tilnefnd til og taldi hún það mikinn heiður þótt hún hafi ekki unnið.[34] Þó flestir gagnrýnendur og áhorfendur voru yfir sig hrifnir af myndinni þótti mörgum húmorinn vera aðeins of grófur og hneykslandi, þar á meðal fyrir bróður Mary sem er fatlaður og var uppspretta að mörgum bröndurum í myndinni. Diaz varði myndina í viðtali, „[Húmorinn í myndinni] er ekki illgjarn eða neitt þannig. Við erum ekki að gera grín að neinum sem á það ekki skilið. Við erum heldur ekki að gera grín að fötluðu fólki. Við erum að gera grín að fólkinu sem gerir grín að þeim“.[35] [36]

Gagnrýnendur: 1999-2002

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir árangur hennar árið 1998 tóku hlutverkin að streyma til hennar. Næst fór hún að vinna að nýjustu mynd Oliver Stones, Any Given Sunday. Í myndinni lék hún á móti leikurum á borð við Al Pacino, Jamie Foxx, LL Cool J og Charlton Heston og sagði hún reynsluna hafa ekki bara verið spennandi heldur líka ógnvekjandi. Hún fór með hlutverk Christinu Pagniacci, eiganda amerísks fótboltaliðs sem myndin fjallar um og er litið á hana sem hálfgerðann skúrk myndarinnar. Mörg atriði myndarinnar voru mjög krefjandi fyrir hana þar á meðal eitt þar sem hún hélt ræðu í búningsklefa fullum af allsberum körlum. „Það var eitt af þessum atriðum þar sem þú ferð bara þarna inn og sinnir starfi þínu“ sagði Diaz í viðtali eftir að myndin kom út „Ég er viss um að Oliver var bara að reyna að taka þetta eins langt og hann gat. Ég hafði ekki neitt á móti þessu. Ég gat gert þetta“.[37] Hún sagði það engu líkt að hafa unnið með Pacino og Stone og sagðist hafa liðið eins og tólf ára stúlku með spangir á meðan hún var að leika í myndinni, „Þarna eru Al Pacino og Oliver Stone og þeir bjóða mér að vera með þeim í myndinni. Það er eiginlega ekki hægt að segja nei við því“. Myndin kom út í desember 1999 og aflaði rúmra 100 milljóna bandaríkjadala út um allan heim en fékk mjög misjafna dóma meðal gagnrýnenda.

Fyrir næsta hlutverk hennar í Being John Malkovich uppskar hún mikið hrós frá gagnrýnendum. Myndin, sem er svört kómedía, fjallaði um leikbrúðustjórnanda sem finnur holu sem leiðir hann inn í huga John Malkovich en Diaz fór með hlutverk eiginkonu leikbrúðustjórnandans. Í myndinni var mikið af farða sett á hana og hún þurfti að lita hárið á sér brúnt og krulla það fyrir hlutverkið svo mörgum fannst hún óþekkjanleg í hlutverki sínu. Eftir að hún skipti um útlit fyrir myndina tók hún eftir því að allt öðruvísi fólk byrjaði að tala við hana úti á götu heldur en þegar hún var ljóshærð.[38] Being John Malkovich hlaut mikið lof gagnrýnenda og meðal annars var Diaz heiðruð fyrir að hafa „horfið inn í persónu sína og orðið einhver önnur manneskja heldur en hún sjálf“.[39] Fyrir myndina fékk Diaz tilnefningar til Golden Globe-verðlauna fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki og BAFTA-verðlauna og var mikið talað um að hún ætti að vera tilnefnd til Óskarsverðlauna það ár en ekki varð úr því.

Diaz og Tom Cruise

Sama ár tók hún að sér hlutverk í þremur öðrum myndum, The Invisible Circus, Things You Can Tell Just by Looking at Her, og Man Woman Film þar sem hún birtist í cameo-hlutverki. Árið 2000 birtist hún í kvikmyndaútgáfu af vinsælu sjónvarpsseríunni Charlie's Angels frá 8. áratug 20. aldar á móti Drew Barrymore og Lucy Liu. Það var eina myndin sem hún gerði árið 2000 og hún lék ekki aftur fyrr en árið eftir þegar hún talaði fyrir Fíónu prinsessu í teiknimyndinni Shrek sem varð 22 tekjuhæsta mynd allra tíma þegar hún kom fyrst út.[40] Síðari mynd hennar árið 2001 hét Vanilla Sky og fór hún með eitt af þremur aðalhlutverkum í myndinni á móti Tom Cruise og Penélope Cruz. Diaz var tilnefnd til níu verðlauna fyrir leik sinn í myndinni þar á meðal var ein tilnefningin til Golden Globe verðlauna fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki.

Leonardo DiCaprio, Martin Scorsese og Diaz við frumsýningu Gangs of New York

Ári síðar hlaut hún sína fjórðu tilnefningu til Golden Globe-verðlauna fyrir myndina Gangs of New York í leikstjórn Martin Scorsese. Í myndinni Diaz lék vasaþjófinn Jenny sem á í ástarsambandi við persónu sem Leonardo DiCaprio leikur, en Daniel Day-Lewis fer einnig með eitt af aðalhlutverkunum í myndinni. Til undirbúnings fyrir myndina var frægur ítalskur maður sem hafði starfað sem vasaþjófur í yfir 30 ár fenginn til þess að kenna henni.[41] Tökur á myndinni áttu sér stað í Rómarborg á Ítalíu frá ágúst 2000 fram í apríl árið eftir og var áætlað að gefa myndina út um jólin 2001 en útgáfunni var seinkað um heilt ár eftir hryðjuverkin 11. september 2001.[42][43] Þegar myndin kom loksins út fékk hún frábæra dóma. Hún var tilnefnd til 10 óskarsverðlauna og aflaði rúmra 200 milljóna bandaríkjadala. Diaz var meðal annars tilnefnd til Golden Globe-verðlauna fyrir hlutverk sitt en vann ekki.[44]

Áframhaldandi frægð: 2003-08

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2002 hófst vinna við framhald Charlie's Angels og komst það fljótt í fréttirnar að Cameron Diaz myndi verða ein af aðeins tveimur leikkonum til þess að fá 20 milljónir bandaríkjadala fyrir eina mynd en Julia Roberts sem hafði leikið með henni í My Best Friend's Wedding sex árum áður var þá eina leikkonan sem hafði fengið svo mikið greitt fyrir eitt hlutverk.[45] Diaz hafði fengið mikið slæmt umtal í blöðum stuttu fyrir útgáfu myndarinnar eftir hún kom fram í spjallþætti Jay Leno í mjög stuttum kjól og án brjóstahaldara og benti á hversu gegnsær kjóllinn hennar væri með því að benda á geirvörturnar sínar.[46] Charlie's Angels: Full Throttle kom út í kvikmyndahús í júlí 2003 en gekk ekki jafn vel og sú fyrri og flestum gagnrýnendum þótti hún ekki vel heppnuð. Diaz sagði samt í viðtali að henni væri sama hvernig myndinni gengi í kvikmyndahúsum af því hún hafði skemmt sér svo mikið við það að búa hana til. [47]

Árið 2003 vann hún svo við framhald Shrek, Shrek 2, og átti næst að að leika aftur á móti Jim Carrey í myndinni Fun With Dick and Jane. Það hefði verið í fyrsta skipti sem þau kæmu saman fram í mynd frá því þau léku á móti hvort öðru í The Mask tíu árum áður, en þegar upptökuáætluninni var seinkað til haustsins 2004 þurfti hún að hætta við þar sem hún var þegar bókuð þann tíma.[48][49][50]

Vorið 2004 lék Diaz í næstu mynd, In Her Shoes, sem var byggð á samnefndri bók frá árinu 2002. Höfundur bókarinnar var ekki ánægð með að Diaz skyldi vera valin af því hún taldi hana ekki líta út fyrir að vera gyðingur eins og persóna hennar var. Framleiðendur myndarinnar leystu þetta með því að hafa persónuna aðeins hálfan gyðing.[51] Myndin kom ekki út fyrr en haustið 2005 og þrátt fyrir góða dóma gekk henni ekki sérstaklega vel í kvikmyndahúsum. Tekjurnar af sölu á Shrek 2 um allan heim sem kom út 23. júní 2004 voru einn milljarður bandaríkjadala og varð hún því fimmta tekjuhæsta mynd allra tíma fram til þess. [52] Vinsældir myndarinnar urðu til þess að gerðar voru áætlanir um þriðju og fjórðu Shrek-teiknimyndirnar rétt eftir útgáfu hennar.[53]

Skömmu eftir að In Her Shoes kom út fór Diaz því strax aftur að vinna að þriðju Shrek-myndinni og tók jafnframt að sér hlutverk í myndinni The Holiday sem var skrifuð og leikstýrt af Nancy Meyers. Tökur á myndinni hófust snemma á árinu 2006 og lék hún á móti öðrum frægum leikurum eins og Kate Winslet, Jack Black, og Jude Law. Myndin fjallaði um tvær konur (eina í Bandaríkjunum og aðra í Bretlandi) sem eru báðar um það leyti að gefast upp á ástinni og ákveða að skiptast á húsum yfir jólin. Diaz lék eina af konunum tveimur og skrifaði Meyers hlutverkið með hana í huga.[54][55][56][57] Diaz sagði í viðtali að hún hefði tekið þessu hlutverki af því henni fannst svo létt að finna persónuna sína í sér af því „allir hafa átt í svona ástarsamböndum sem slitna. En ég elskaði hvernig hún sýndi hugrekki. Hún hefur horfið frá þessu örugga ástandi og farið á brott alveg ein á báti. Með því að gera það finnur hún út hver hún er“.[58] Hún sagði einnig að þetta hefði verið það hlutverk sem reyndi mest á hana líkamlega vegna þess hún þurfti að hlaupa mikið á háum hælum.[59] The Holiday kom út í kvikmyndahúsum í desember 2006 og varð ekki mjög vinsæl í Bandaríkjunum en aflaði meira en 200 milljóna bandaríkjadala á heimsvísu.[60][61][62][63]

Cameron Diaz á frumsýningu Shrek the Third

Næsta mynd hennar í kvikmyndahúsum var þriðja myndin í Shrek-myndaröðinni, Shrek the Third, sem kom út sumarið 2007. Allra augu voru nú á Cameron og Justin Timberlake en Diaz hafði útvegað honum hlutverk í myndinni. Þau höfðu hætt saman stuttu eftir vinnu við myndina lauk. Diaz og Timberlake sannfærðu fjölmiðla á rauða dreglinum um að þau væru ennþá vinir og föðmuðust og kysstu hvort annað á kinnarnar.[64] Helgina sem myndin var frumsýnd skilaði hún 120 milljónum bandaríkjadala í kassann sem var þá þriðja tekjuhæsta opnunarhelgi allra tíma, en í heildina fékk myndin lægri tekjur en sú fyrri. Auk þess var þetta fyrsta myndin í röðinni sem fékk almennt slæma dóma frá gagnrýnendum.

Stuttu áður en Shrek the Third kom út tók Cameron Diaz við hlutverki í rómantísku gamanmyndinni What Happens in Vegas þar sem hún lék á móti Ashton Kutcher. Myndin fjallaði um bláókunnugt fólk sem vaknar einn morgun saman í Las Vegas, uppgötvar að þau eru gift og hafa unnið pottinn í spilavíti sem hvorugt þeirra langar að deila með hinu.[65] Vinna við myndina hófst haustið 2007 og fór fram bæði í Las Vegas og New York-borg. Við útgáfu myndarinnar vakti What Happens in Vegas litla athygli aðallega út af harðri samkeppni við stórar myndir eins og Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull og Iron Man. Hún olli því vonbrigðum þrátt fyrir að hafa aflað framleiðendum sínum í Bandaríkjunum tekna. Sama ár var Diaz skráð tekjuhæsta leikkonan í Hollywood með 50 milljónir bandaríkjadala í laun fyrir aðeins tvær myndir (What Happens in Vegas og Shrek the Third) en hún var með átján milljónum hærri laun heldur en næsta leikkona fyrir neðan, Keira Knightley.[66][67]

Fjölbreyttari hlutverk: 2009-2011

[breyta | breyta frumkóða]
Diaz, Sofia Vassilieva og Abigail Breslin úr My Sister's Keeper á kvimyndaverðlaunum MTV 2009

Árið 2009 kom Cameron Diaz fram í tveimur hlutverkum mjög ólíkum þeim sem hún hafði leikið í áður. Hið fyrra af þessum tveimur hlutverkum var sem fyrrverandi lögfræðingur sem snýr aftur í réttarsalinn þegar 13 ára dóttir hennar fer í mál svo hún þurfi ekki að gefa deyjandi systur sinni nýra. Myndin heitir My Sister's Keeper og var byggð á vinsælli bók eftir Jodie Picoult. Diaz undirbjó sig mikið fyrir hlutverkið og eyddi miklum tíma með mæðrum veikra barna. Þegar hún var spurð að því af hverju hún ákvað að taka við hlutverkinu sagði hún: „Mér finnst þetta vera mjög raunveruleg saga sem mjög margar geta sett sig í samband við“. [68] Við útgáfu myndarinnar fengu Diaz og meðleikarar hennar í myndinni mikið lof fyrir leik þeirra í myndinni en almennt hlaut myndin slæma dóma fyrir leikstjórn Nick Cassavetes .[69]

Þann 22. júní 2009 var Cameron Diaz heiðruð með stjörnu á hinu fræga Walk of Fame í Hollywood en hundruðir aðdáenda hennar mættu í athöfnina ásamt fjölskyldu hennar og vinum. Í ræðu sinni þakkaði hún sérstaklega fjölskyldu sinni og sagði, „[Stuðningur þeirra] er það sem hefur veitt hér styrkinn og hugrekkið til þess að lifa þessu óhefðbundna lífi og það er það sem knýir áfram logann sem brennur í brjósti mér“.[70]

Hið seinna af tveimur hlutverkum Diaz þetta ár var í þriðju mynd Richard Kelly, The Box, sem hafði verið kvikmynduð tveimur árum áður og geymd þangað til ákveðið var að gefa hana út í mars 2009. Útgáfu var svo seinkað fram í september og stuttu seinna aftur til nóvember. Myndin fékk litla athygli vegna þess lítið hafði verið gert til þess að auglýsa hana. Diaz hafði lengi verið mikill aðdáandi Kelly eftir að hafa séð mynd hans Donnie Darko og strax gripið tækifærið til þess að leika í mynd hans: „Hann er svo einstakur kvikmyndagerðamaður og getur tjáð hugmyndir sínar á svo sérkennilegann hátt“.[71] Hún birtist síðan ekki aftur á hvíta tjaldinu fyrr en árið eftir þegar fjórða og síðasta Shrek-myndin Shrek: Sæll alla daga kom út þar sem Diaz sneri aftur sem Fíóna prinsessa.

Myndin Knight and Day sem skartaði Cameron kom út sumarið 2010 en það var njósnamynd með rómantísku ívafi sem Diaz hafði verið að vinna að í meira en ár. Hún hafði lesið handritið og stungið upp á því að hún og Tom Cruise, vinur hennar og fyrrverandi mótleikari í Vanilla Sky myndu leika saman í henni sem þá hét Wichita og seinna Trouble Man.[72] Vorið 2009 fóru þær fréttir að berast að Cruise og Diaz myndu sameinast á ný í myndinni og sagði Diaz frá í viðtölum hversu mikið hana hlakkaði til, „Ég er rosa spennt. Þetta er hasarmynd og ég get ekki beðið eftir því að vinna með [Cruise]“. [73] Tökur á myndinni hófust haustið 2009 og sagði Diaz reynsluna hafa verið ólík öllu því sem hún hafði gert áður af því hún ferðaðist svo mikið fyrir myndina en hún var tekin upp í Illinois, Massachusetts, Kaliforníu, Austurríki, Spáni, og Jamaíka.[74] „Þetta var ótrúlega gaman. Ég elska að geta gert bardaga atriði og þarna var alveg heil vika af marblettum, sárum, tognum og brákun á hálsi. Ég þurfti að fara á Golden Globe verðlaunin og ég var með marbletti og kúlur upp hendurnar og fæturnar á mér“.[75]

Árið 2011 birtist Diaz í tveimur kvikmyndum: Sú fyrri hét Græna vespan sem var byggð á samnefndum sjónvarpsþáttum frá sjöunda áratug 21. aldar. Hin seinni hét Bad Teacher og var hlutverk hennar þar ólíkt nokkru sem hún hafði leikið áður. Persóna hennar var kennari að nafni Elizabeth Halsey sem er alveg sama um alla nemendur sína, bölvar þeim, dettur í það og reykir gras á skólatíma. Hún hyggst kvænast nýjum varakennara við skólann, Scott Delacorte, sem er bæði ríkur og myndalegur en hún telur sig líklegri til þess að vinna hylli hans með því að fara í brjóstaaðgerð. „Þegar ég las handritið fyrst hugsaði ég það er engin leið að ég geti leikið hana. Mér líkar ekki við hana. Þá var ég aðeins búin að lesa tíu blaðsíður en síðan þegar ég var búin með 20 blaðsíður fannst mér Elizabeth vera mjög fyndin. Og síðan las ég aðrar tíu blaðsíður og ég gat ekki látið handritið frá mér. Þegar ég var búin var ég staðráðin í því að leika hlutverkið“. Það vakti mikla athygli að fyrrverandi kærasti Diaz, Justin Timberlake, færi með hlutverk Scotts og fullyrtu þau bæði í viðtölum að þau væru enn góðir vinir. „Justin er svo fyndinn og svo hæfileikaríkur. Það var alveg upplagt að fá hann í þetta hlutverk, hann er sá eini sanni í það“ sagði Diaz í viðtali og bætti við að „það besta við þessa mynd eru leikararnir. Það er svo hæfileikaríkur hópur sem kemur hérna fram og við skemmtum okkur öll“. [76]

2012–2014: Einblínt á gamanmyndir

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2012 var Diaz í myndinni What to Expect When You're Expecting, leikstýrð af Kirk Jones og byggð á samnefndri meðgöngu sjálfshjálparbók.[77] Diaz, sem lék senur sínar yfir tveggja mánaða tímabil, lék Jules Baxter, keppenda í danskeppni og kynnir þyngdartapsþáttar, sem verður ólétt af dansfélaga sínum.[78] Við útgáfu, fékk gamanmyndin aðalega neikvæða gagnrýni en var tiltölulega vinæl með tekjur upp á US$84.4 milljónir.[79][80] Önnur mynd Diaz það árið var Gambit, endurgerð 1966 samnefndrar myndar sem var leikstýrð af Michael Hoffman og handritshöfundinn Joel and Ethan Coen. Meirihluti gagnrýnanda gaf neikvæða umsögn,[81] og myndin fékk litlar tekjur, með aðeins US$10 milljónir á alþjóðavísu.[82] Diaz talaði fyrir Sigmund Freud í A Liar's Autobiography (2012), breskri gamanmynd sem segir (viljandi) rangt frá atburðum[83] lífs Monty Python uppistandarans Graham Chapman.

Kate Upton, Diaz og Leslie Mann á frumsýningu The Other Woman árið 2014

Árið 2013 var eina kvikmynd Diaz mynd Ridley Scott The Counselor, með meðleikurunum Michael Fassbender, Javier Bardem, Penélope Cruz og Brad Pitt. Í hryllingsmyndinni um græðgi, dauða og frumviðbrögð manna og afleiðingar þeirra. Í myndinni leikur Diaz sjúkan lygara og siðleysinga, innflytjanda sem lifar lífi hinna ríku eftir að hafa flúið líf súludansara. Þó að gagnrýni myndarinnar var neikvæð, þá var frammistöðu hennar fagnað sem einni þeirra bestu síðustu ára.[84]

Árið 2014 var fyrsta mynd Diaz á árinu rómantíska hefndar gamanmyndin The Other Woman með Nikolaj Coster-Waldau, Leslie Mann og Kate Upton. Þó að The Other Woman fékk aðalega neikvæðar umsagnir frá gagnrýnendum, sem fannst hana hafa einfalda brandara,[85] þá var myndin stuttu eftir frumsýningu ein tekjuhæsta mynd þess tímabils með US$24.7 milljóna tekjur yfir þriggja daga tímabil.[86] Myndin fékk síðar alls US$83.9 milljónir í Norður Ameríku og US$196.7 milljónir á alþjóðavísu.[87]

Ástarsambönd

[breyta | breyta frumkóða]
Ástarsamband Diazar og Matt Dillons vakti mikla athygli fjölmiðla.

Árið 1990, þegar Diaz var sautján ára, lék hún í auglýsingu fyrir L.A. Gear og varð um leið ástfangin af myndbandsframleiðandanum, Carlos de la Torre, sem var tíu árum eldri en hún. Hún eyddi öllum deginum að reyna að fá hann til þess að tala við sig. „Ég gaf henni engan gaum“ sagði de la Torre í viðtali, „Það er tabú að reyna við fyrirsæturnar þegar þú vinnir fyrir fyrirtækið sem sér um þær“. Hann hringdi í hana daginn eftir og um ári seinna höfðu þau keypt sér íbúð saman í Hollywood.[88] Þegar Diaz var 22 ára, eftir fimm ár með de la Torre, ákvað hún að hætta með honum og sagði hún í viðtali: „Hann er frábær og við erum ennþá vinir, ég elska hann. Hann er mjög mikilvæg manneskja í lífi mínu en ég þurfti að flytja út og finna út hver ég væri“.[89]

Árið 1996, á meðan Diaz var við tökur á myndinni Feeling Minnesota í Minnesota-fylki, Bandaríkjunum hitti hún leikarann Matt Dillon sem var líka að taka upp mynd þar. „Við höfum þroskast svo mikið saman og ég elska hann mjög mikið“ sagði hún í viðtali þegar aðspurð um sambandið. Þegar tökum á myndinni lauk héldu þau áfram sambandinu þrátt fyrir að þau byggju á sitthvorri strönd Bandaríkjanna, hún í Los Angeles og hann í New York. Hún fullyrti við fjölmiðla að hún væri ekki tilbúin að gifta sig, „Ég vil eignast fjölskyldu, en það er ekki eitthvað sem ég hugsa um núna“. Parið kom fram saman í myndinni Það er eitthvað við Mary sem varð ein vinsælasta mynd ársins 1998 en þau hættu saman stuttu eftir að tökum lauk. Dillon sagðist ekki hafa verið tilbúinn að gerast ráðsettur og eignast fjölskyldu. Í viðtali árið 2006 sagðist Dillon sjá eftir skilnaðinum og hann hafi tapað einni af stærstu ástum lífs síns, „Ég varð ástfanginn. Það er mjög kraftmikil tilfinning þegar manni líður þannig í garð einhvers. Cameron var menntagyðja mín. Þangað til hafði ég ekki verið í neinum hjartnænum ástarsamböndum áður“.[90]

Í mars 1999 fór Diaz að eiga í sambandi með leikaranum Jared Leto. Hvorugt þeirra talaði um sambandið við fjölmiðla og sagði hún í viðtali að oft hefði hún komið heim eftir viðtöl og skammað sjálfa sig fyrir að segja of mikið í staðinn fyrir að segja: „Veistu hvað, mig langar ekki til þess að svara þessari spurningu“ og þess vegna hafði hún ákveðið að svara ekki spurningum um einkalíf sitt.[91] Sumarið 2000 bárust þær fregnir að parið hefði hætt saman en Diaz þverneitaði öllum orðrómum og sagði, „Þessi orðrómur særir Jared meira en mig. Ég er vön þessu. Við erum mjög hamingjusöm“.[92] Margar fréttir birtust um þau tvö á næstu árum og vakti það mikla athygli þegar sást til Leto úti á lífinu ásamt Paris Hilton og Diaz með Leonardo DiCaprio. Í janúar 2003 sást til Diaz með dýran demantshring á baugfingri og var það þá sem parið opinberaði trúlofun sína, en hún hafði þá staðið í næstum því þrjú ár.[93] Það kom þess vegna mikið á óvart þegar þau slitu sambandinu í apríl það ár eftir fjögur ár saman.[94]

Diaz átti í þriggja ára löngu ástarsambandi við tónlistarmanninn Justin Timberlake 2003 til 2006 og vakti það samband mikla athygli fjölmiðla. Síðar átti hún í sambandi við hafnaboltaleikmanninn Alex Rodriguez frá júlí 2010 til september 2011.

Fjölskylda

[breyta | breyta frumkóða]

Diaz hefur allt sitt líf átt í mjög nánu sambandi við systur sína og segist tala við hana á hverjum degi. Þann 15. apríl 2008 dó faðir hennar, Emilio, úr lungnabólgu. Diaz, sem var þá önnum kafin við tökur á myndinni My Sister's Keeper, tók sér frí frá allri vinnu og flaug heim til fjölskyldu sinnar. Viku eftir fráfall Emilios hélt fjölskyldan minningarathöfn þar sem yfir 400 manns mættu, þar á meðal fyrrverandi kærasti Diazar Justin Timberlake. Diaz sagði í yfirlýsingu fyrir fjölmiðla: „Hann var örlátur vinur, góður afi, framúrskarandi faðir og heiðvirður eiginmaður“.[95]

Pólitík og umhverfismál

[breyta | breyta frumkóða]

Diaz studdi Al Gore í bandarísku forsetakosningunum árið 2000 og var meðal annars klædd í bol sem á stóð „Ég kýs ekki soninn hans Bush!“ (I Won't Vote For a Son of a Bush!).[96] Fjórum árum síðar, í næstu forsetakosningum, vakti hún mikla athygli fyrir ummæli í spjallþætti Opruh Winfrey: „[Konur] eru með rödd núna og við erum ekki að nota hana og konur hafa svo miklu að tapa. Ég meina, við gætum tapað réttinum yfir líkömum okkar. Ef þér finnst að nauðgun ætti að vera lögleg þá skalt þú ekki kjósa. En ef þér finnst að þú eigir rétt á þínum eigin líkama og þú hafir rétt til að ákveða hvað gerist fyrir þig, þá skalt þú kjósa“. Diaz var á móti því að George W. Bush yrði endurkjörinn sem forseti og þótti hún meina með þessari athugasemd að ef fólk myndi kjósa Bush væri það að lögleiða nauðgun.[97][98]

Hún hefur einnig verið mjög áberandi sem umhverfissinni og árið 2005 var hún með sinn eigin umhverfissjónvarpsþátt að nafni Trippin' á MTV-sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum. Í þáttunum ferðuðust Diaz, nánir vinir hennar og þáverandi kærasti hennar Justin Timberlake, til afskekktra staða í heiminum og ræddu um hvernig ætti að „vernda jörðina, varðveita orku, koma í veg fyrir gróðurhúsaáhrif og hjálpa ættflokkum í frumskógum að halda áfram að lifa lífi sínu eins og þeir gera“.[99] Þátturinn dróg að sér mikið af neikvæðri gagnrýni, sérstaklega frá bandaríska bloggaranum Maddox sem á vefsíðu sinni dæmdi Diaz fyrir að gagnrýna hversu „heimurinn sem við byggjum í hefði farið úr böndunum“ á meðan hún væri að fá tuttugu milljónir bandaríkjadala fyrir hverja einustu mynd sem hún léki í, æki Lexus-bíl og byggi í þriggja hæða höll, eins og hann orðaði það.[100]

Sumarið 2007, þegar Diaz var í fríi í Perú vakti hún mikla athygli fyrir að vera með handtösku sem á stóð „Þjónið almúganum“ með rauðri stjörnu á. Orðtakið var slagorð Maó Zedongs, fyrrum leiðtoga Kína, en „Sendero Luminoso“-samtökin voru hópur maóista í Perú sem drap næstum því 70.000 manns á 9. og 10. áratug 20. aldar. Því urðu margir Perúmenn móðgaðir. „Þetta orðtak vísar óbeint í hlut sem skaðaði Perú svo mikið“ sagði Pablo Rojas, mannréttinda-aðgerðasinni í Perú. Diaz baðst afsökunar í yfirlýsingu sem hún gaf út skömmu eftir að ferð hennar lauk. „Ég keypti töskuna í Kína og áttaði mig ekki á því hvernig hún gæti sært ákveðna aðila“.[101][102][103]

Kvikmyndalisti

[breyta | breyta frumkóða]
Ár Kvikmynd Hlutverk Athugasemd Tekjur á heimsvísu
1992 She's No Angel: Cameron Diaz Nakin kona Stuttmynd Ófáanlegt
1994 The Mask Tina Carlyle $351.583.407
1995 The Last Supper Jude $459.749
1996 She's the One Heather $9.538.948
Feeling Minnesota Freddie Clayton $3.124.440
Head Above Water Nathalie $32.212
Keys to Tulsa Trudy $57.252
1997 My Best Friend's Wedding Kimberly Wallace ALMA-verðlaun fyrir leikkonu í kvikmynd
Blockbuster-verðlaun fyrir uppáhalds leikkonu í aukahlutverki í grínmynd
Tilnefnd – Satellite-verðlaun fyrir leikkonu í aukahlutverki í kvikmynd.
$299.288.605
A Life Less Ordinary Celine Naville $4.366.722
1998 Fear and Loathing in Las Vegas Fréttakona Cameo hlutverk $10.680.275
Það er eitthvað við Mary Mary Jensen American Comedy-verðlaun fyrir fyndnustu leikkonu í aðalhlutverki
Blockbuster-verðlaun fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki - gamanmynd
New York Film Critics Circle-verðlaun fyrir bestu leikkonu í gamanmynd
Tilnefnd — ALMA-verðlaun fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki
Tilnefnd – Golden Globe-verðlaun fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki í gamanmynd
$369.884.651
Very Bad Things Laura Garrety $9.898.412
1999 Man Woman Film Dægurstjarna Cameo hlutverk Ófáanlegt
Being John Malkovich Lotte Schwartz Tilnefnd — American Comedy-verðlaun fyrir fyndnustu leikkonu í aukahlutverki
Tilnefnd – BAFTA-verðlaun fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki
Tilnefnd – [Chlotrudis-verðlaun fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki
Tilnefnd – Golden Globe-verðlaun fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki
Tilnefnd – Las Vegas Film Critics Society-verðlaun fyrir bestu Leikkonu í aukahlutverki
Tilnefnd – Online Film Critics Society Award-verðlaun fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki
Tilnefnd – Satellite-verðlaun fyrir bestu kvikmyndaleikkonu í aukahlutverki
Tilnefnd – Screen Actors Guild-verðlaun fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki
$22.863.596
Things You Can Tell Just by Looking at Her Carol Faber Ófáanlegt
The Invisible Circus Faith $77.578
Any Given Sunday Christina Pagniacci ALMA-verðlaun fyrir bestu leikkonu í kvikmynd
Blockbuster Entertainment-verðlaun fyrir uppáhalds leikkonu - dramamynd
$100.230.832
2000 Charlie's Angels Natalie Cook Tilnefnd – Saturn-verðlaun fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki
Tilnefnd – Satellite-verðlaun fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki í gamanmynd
Tilnefnd — MTV Movie-verðlaun fyrir bestu ummæli í kvikmynd (fyrir „I signed the release, so you can stick anything you want in my slot!“.)
$264.105.545
2001 Shrek Fíóna Prinsessa Teiknimynd $484.409.218
Vanilla Sky Julie Gianni Boston Society of Film Critics-verðlaun fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki
Chicago Film Critics Association Verðlaun fyrir Bestu Leikkonu í Aukahlutverki
Tilnefning— AFI-verðlaun fyrir bestu leikkonu
Tilnefnd — ALMA-verðlaun fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki
Tilnefnd – Broadcast Film Critics Association-verðlaun fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki
Tilnefnd – Golden Globe-verðlaun fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki
Tilnefnd – Phoenix Film Critics Society-verðlaun fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki
Tilnefnd – Saturn-verðlaun fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki
Tilnefnd – Screen Actors Guild-verðlaun fyrir framúrskarandi leik konu í kvikmynd.
$203.388.341
2002 The Sweetest Thing Christina Walters $68.696.770
Gangs of New York Jenny Everdeane Tilnefnd – Golden Globe-verðlaun fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki $193.772.504
2003 Charlie's Angels: Full Throttle Natalie Cook $259.175.788
2004 Shrek 2 Fíóna Prinsessa Teiknimynd $919.838.758
2005 In Her Shoes Maggie Feller Tilnefnd — Imagen Foundation-verðlaun fyrir bestu leikkonu $83.073.883
2006 The Holiday Amanda Woods $205.135.324
2007 Shrek the Third Fíóna Prinsessa Teiknimynd $798.958.162
2008 What Happens in Vegas Joy McNally $219.375.797
2009 My Sister's Keeper Sara Fitzgerald Tilnefnd — ALMA-verðlaun fyrir framúrskarandi leikkonu í kvikmynd $95.714.875
The Box Norma Lewis $33.333.531
2010 Shrek: Sæll alla daga Fíóna Prinsessa Teiknimynd
Tilnefnd — Annie-verðlaun fyrir rödd í teiknimynd
$752.600.867
Knight and Day June Havens $261.930.436
2011 Græna vespan Lenore Case $227.817.248
Bad Teacher Elizabeth Halsey $209.239.414
2012 Beðið eftir barni Jules $74.553.004
2013 Gambit PJ Puznowski $10.200.000
2013 Ráðgjafinn Malkina $71.009,334
2014 Hin konan $193.685.551
  1. Tom Gillato (22. ágúst 1994), http://www.people.com/people/archive/article/0,,20103708,00.html Geymt 31 mars 2011 í Wayback Machine, People Magazine
  2. Christine James (2002), https://web.archive.org/web/20071210230318/http://www.reel.com/reel.asp?node=features%2Finterviews%2Fdiaz, Reel.com
  3. Lawrence Grobel (1. mars 1997), http://www.movieline.com/1997/03/candid-cameron.php?page=2[óvirkur tengill], MovieLine
  4. http://www.people.com/people/gallery/0,,639320_3,00.html
  5. http://latimesblogs.latimes.com/gossip/2011/01/cameron-diaz-snoop-dogg-pot-weed-marijuana-poly-high-school.html
  6. Fréttablaðið (22. janúar 2011), http://epaper.visir.is/media/201101220000/pdf_online/1_45.pdf Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine
  7. Cameron Diaz: Candid Cameron[óvirkur tengill]
  8. Jan Jansen (23. júlí 2000), http://findarticles.com/p/articles/mi_qn4161/is_20000723/ai_n14512693/[óvirkur tengill], Sunday Mirror
  9. PEOPLE (2010),http://www.people.com/people/cameron_diaz/biography Geymt 3 október 2011 í Wayback Machine, People Magazine
  10. iloveindia (2007), http://lifestyle.iloveindia.com/lounge/cameron-diaz-2075.html,
  11. Seventeen Magazine (2009), http://www.seventeen.com/fun/articles/65th-anniversary-cover-archive
  12. Dana Kennedy (23. mars 1994), http://www.ew.com/ew/article/0,,301520,00.html Geymt 7 júní 2011 í Wayback Machine, Entertainment Weekly
  13. Bio.com (2011), http://www.biography.com/articles/Cameron-Diaz-9273866 Geymt 27 júlí 2011 í Wayback Machine
  14. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. janúar 2012. Sótt 9. júlí 2011.
  15. yahoo.com (2011), http://movies.yahoo.com/movie/contributor/1800020297/bio Geymt 8 mars 2012 í Wayback Machine
  16. http://www.cameron-diaz.org/career/rumored-projects/ Geymt 14 nóvember 2011 í Wayback Machine, CameronDiaz.org
  17. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. júní 2011. Sótt 9. júlí 2011.
  18. http://boxofficemojo.com/movies/?id=mask.htm, Box Office Mojo
  19. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. maí 2011. Sótt 22. júlí 2011.
  20. Matthew Hawkins (Desember 2010), http://www.heavy.com/movies/2009/12/cameron-diaz-was-almost-in-mortal-kombat/ Geymt 15 febrúar 2011 í Wayback Machine, Heavy.com
  21. http://www.cameron-diaz.com/profile/index.html Geymt 6 ágúst 2011 í Wayback Machine, Cameron-Diaz.com
  22. ThespianNet.com (1999), http://www.thespiannet.com/actresses/D/diaz_cameron/cameron_diaz.shtml
  23. Rovi Corporation (2011), http://www.allrovi.com/movies/movie/v154322[óvirkur tengill]
  24. Tiscall corp. (2010), http://www.talktalk.co.uk/entertainment/film/biography/artist/cameron-diaz/biography/16?page=5
  25. Dennis Hunt (8. september 1996), http://pqasb.pqarchiver.com/sandiego/access/1242875371.html?dids=1242875371:1242875371&FMT=ABS&FMTS=ABS:FT&type=current&date=Sep+08%2C+1996&author=Dennis+Hunt&pub=The+San+Diego+Union+-+Tribune&desc=Cameron+Diaz%3A+She's+the+one+in+`Feeling+Minnesota'&pqatl=google[óvirkur tengill], The Sand Diego Union Tribune.
  26. http://www.imdb.com/title/tt0119738/trivia, International Movie Database
  27. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. nóvember 2011. Sótt 22. júlí 2011.
  28. Ireland Film and Television Net Interviews, (30. október 1997), http://home.planet.nl/~meisner/iftn.html, Cameron Chameleon
  29. People (14. september 1998), http://www.people.com/people/archive/article/0,,20126255,00.html Geymt 29 mars 2011 í Wayback Machine
  30. People (11. maí 1998), http://www.people.com/people/archive/article/0,,20125246,00.html Geymt 29 mars 2011 í Wayback Machine
  31. Entertainment Weekly (26. júní 1998), http://www.ew.com/ew/article/0,,283769,00.html Geymt 30 maí 2012 í Archive.today, Cameron Diaz: The It Girl
  32. Box Office Mojo, http://boxofficemojo.com/movies/?page=main&id=somethingaboutmary.htm Geymt 5 ágúst 2011 í Wayback Machine
  33. James Berardinelli (1998), http://www.reelviews.net/movies/t/theres_something.html, Reelviews
  34. http://www.imdb.com/title/tt0129387/awards
  35. http://www.totalfilm.com/features/the-evolution-of-cameron-diaz/there-s-something-about-mary-1998
  36. Jess Cagle (27. júlí 2011), http://edition.cnn.com/SHOWBIZ/Movies/9807/27/farrelly.bros/index.html?iref=allsearch Geymt 10 mars 2016 í Wayback Machine, CNN
  37. Winnipeg Sun Monday (27. desember 1999), http://velvet_peach.tripod.com/fpacanygivensunday.html
  38. Paul Fischer (1999), http://www.crankycritic.com/qa/diaz_keener.html Geymt 7 janúar 2010 í Wayback Machine, Cranky Critic Star Talk
  39. James Berardinelli (1999), http://www.reelviews.net/movies/b/being_john.html
  40. http://boxofficemojo.com/alltime/world/
  41. Gangs of New York (2002) - Trivia
  42. WENN (12. apríl 2001), http://www.imdb.com/news/ni0070428/
  43. WENN (9. október 2001), http://www.imdb.com/news/ni0065286/
  44. http://boxofficemojo.com/movies/?id=gangsofnewyork.htm
  45. WENN (1. febrúar 2002), http://www.imdb.com/news/ni0054170/
  46. WENN (26. júní 2003), http://www.imdb.com/news/ni0058588/
  47. WENN (9. júlí 2003), http://www.imdb.com/news/ni0056173/
  48. TNPihl (22. júlí 2004), http://www.jimcarreyonline.com/forum/viewtopic.php?f=15&t=1958
  49. ContactMusic (11. júní 2003), http://www.contactmusic.com/new/xmlfeed.nsf/story/diaz-and-carrey-for-dick-and-jane[óvirkur tengill]
  50. Killer Movies (22. júlí 2004), http://www.killermovies.com/f/funwithdickandjane/articles/4254.html
  51. Nate Bloom (17. maí 2004), http://www.jewishworldreview.com/0504/jewz_in_the_newz.php3 Geymt 11 nóvember 2011 í Wayback Machine, Jewz in the Newz
  52. http://boxofficemojo.com/alltime/world/
  53. WENN (10. júní 2004), http://www.imdb.com/news/ni0100381/[óvirkur tengill]
  54. The Holiday (2006) - Trivia
  55. http://kvikmyndir.is/KvikmyndirMovie/entry/movieid/3311#[óvirkur tengill]
  56. Rebecca Murray (9. september 2005), http://movies.about.com/od/winsletkate/a/holiday093005.htm Geymt 21 apríl 2013 í Wayback Machine
  57. Sofpedia (30. september 2005), http://news.softpedia.com/news/Kate-Winslet-and-Cameron-Diaz-Go-On-Holiday-9630.shtml Geymt 11 desember 2007 í Wayback Machine
  58. indieLondon (2006), http://www.indielondon.co.uk/Film-Review/the-holiday-cameron-diaz-interview Geymt 20 desember 2013 í Wayback Machine
  59. Chuck the Movie Guy (25. nóvember 2006), http://www.youtube.com/watch?v=BpGFKEzTtQw
  60. StarPulse (28. október 2005), http://www.starpulse.com/news/index.php/2005/10/28/jack_black_cameron_diaz_aamp_kate_winsle Geymt 24 júlí 2012 í Wayback Machine
  61. TimeOut (29. september 2005), http://www.timeout.com/film/news/669/kate-winslet-to-holiday-with-cameron-diaz.html Geymt 7 janúar 2010 í Wayback Machine
  62. Isabel Rodriguez (14. desember 2005), http://www.elmulticine.com/noticias2.php?orden=357 Geymt 30 desember 2008 í Wayback Machine
  63. Total Film (29. september 2005), http://www.totalfilm.com/news/winslet-and-diaz-on-holiday
  64. WENN (8. maí 2007), http://www.imdb.com/news/ni0055046/
  65. Variety (17. maí 2007), http://www.variety.com/article/VR1117965023?refCatId=1876[óvirkur tengill]
  66. Lacey Rose (11. ágúst 2008), http://www.forbes.com/2008/08/07/diaz-knightly-aniston-biz-media-cx_lr_0811actresses.html, Forbes
  67. Hollyscoop Team (23. júlí 2008), http://www.hollyscoop.com/cameron-diaz/forbes-names-cameron-diaz-highest-paid-actress.html Geymt 27 mars 2012 í Wayback Machine
  68. Rove McManus (12. júlí 2009), http://www.youtube.com/watch?v=TZuvQa23vhA
  69. http://www.rottentomatoes.com/m/10010662-my_sisters_keeper/
  70. BBC News (23. júní 2009), http://news.bbc.co.uk/2/hi/entertainment/8114293.stm
  71. http://www.youtube.com/watch?v=zwYGLHSbs50
  72. Knight and Day (2010) - Trivia
  73. Lara Martin (25. júní 2010), http://www.digitalspy.co.uk/movies/news/a162034/diaz-very-excited-about-cruise-reunion.html[óvirkur tengill], Digital Spy
  74. http://www.imdb.com/title/tt1013743/locations
  75. Clevver Movies (19. júní 2010), http://www.youtube.com/watch?v=N0_-cpz_mwk
  76. Clevver Movies (10. júní 2011), http://www.youtube.com/watch?v=dDGCCJSS2eQ
  77. „Matthew Morrison Joins Lionsgate's 'What To Expect When You're Expecting'. Deadline Hollywood. Mail.com Media. 15. júlí 2011. Afrit af uppruna á 16. júlí 2011. Sótt 17. júlí 2011.
  78. Eisenberg, Eric (17. maí 2012). „What To Expect When You're Expecting Director Kirk Jones Talks Taking It One Step At A Time“. Cinema Blend. Afrit af uppruna á 11. október 2012. Sótt 19. janúar 2013.
  79. „What to Expect When You're Expecting“. Afrit af uppruna á 27. júlí 2020. Sótt 3. janúar 2020.
  80. „What to Expect When You're Expecting“. Rotten Tomatoes. Afrit af uppruna á 30. júlí 2020. Sótt 3. janúar 2020.
  81. „Gambit (2012)“. Rotten Tomatoes. Afrit af uppruna á 10. apríl 2013. Sótt 9. maí 2013.
  82. „Gambit (2013) - International Box Office“. Box Office MOJO. Afrit af uppruna á 21. maí 2013. Sótt 1. janúar 2013.
  83. Cieply, Michael (26. júní 2011). „Graham Chapman Tribute“. New York Times. Afrit af uppruna á 29. júní 2011. Sótt 26. júní 2011.
  84. „The Counselor (2013)“. Rotten Tomatoes (Flixster). Afrit af uppruna á 6. mars 2014. Sótt 6. mars 2014.
  85. „The Other Woman (2014)“. Rotten Tomatoes. Afrit af uppruna á 15. apríl 2014. Sótt 16. apríl 2014.
  86. McClintock, Pamela (27. apríl 2014). „Box Office: Females Fuel 'Other Woman' to First-Place $24.7 Million Debut“. The Hollywood Reporter. Afrit af uppruna á 29. apríl 2014. Sótt 28. apríl 2014. „April 27, 2014“
  87. „Box Office Mojo - Movie Index, A-Z“. www.boxofficemojo.com. Afrit af uppruna á 11. ágúst 2018. Sótt 17. apríl 2020.
  88. Tom Gliatto (22. ágúst 1994), http://www.people.com/people/archive/article/0,,20103708,00.html Geymt 31 mars 2011 í Wayback Machine, People Magazine
  89. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. ágúst 2011. Sótt 14. ágúst 2011.
  90. WENN (24. júlí 2006), http://www.hollywood.com/news/Dillon_Attempts_to_Explain_Diaz_Split/3536260, Hollywood.com
  91. Ron Dicker (28. október 1999),http://articles.sfgate.com/1999-10-28/entertainment/28588098_1 Geymt 30 maí 2012 í Archive.today, SF Gate
  92. WENN (21. júlí 2000), http://www.culture.com/news/item/4701/cameron-and-jared-never-split-up.phtml Geymt 22 september 2012 í Wayback Machine
  93. WENN (22. janúar 2003), http://www.imdb.com/news/ni0066162/
  94. WENN (24. apríl 2003), http://www.imdb.com/news/ni0052608/
  95. Lisa Ingrassia (5. maí 2011), http://www.people.com/people/article/0,,20196080,00.html Geymt 20 september 2015 í Wayback Machine, People
  96. http://www.liberalartists.com/cgi-bin/index.cgi?action=viewnews&id=595
  97. Derek Gilbert (30. september 2004), http://derekpgilbert.wordpress.com/2004/09/30/cameron-diaz-voting-for-bush-is-voting-for-rape/
  98. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. mars 2016. Sótt 19. ágúst 2011.
  99. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. nóvember 2012. Sótt 19. ágúst 2011.
  100. Maddox (2005), http://www.thebestpageintheuniverse.net/c.cgi?u=trippin
  101. Caris Davis (25. júní 2007), http://www.people.com/people/article/0,,20043642,00.html Geymt 22 nóvember 2011 í Wayback Machine, People.com
  102. http://today.msnbc.msn.com/id/19410813/ns/today-entertainment/t/cameron-diaz-apologizes-carrying-mao-bag/[óvirkur tengill]
  103. http://www.dailymail.co.uk/tvshowbiz/article-463979/Cameron-Diaz-Mao-bag-row-land-Incas.html