Fara í innihald

Bricker-frumvarpið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Öldungadeildarþingmaðurinn John W. Bricker.

Bricker-frumvarpið er heiti á nokkrum tillögum að viðaukum við Stjórnarskrá Bandaríkjanna sem öldungadeild Bandaríkjaþings tók til meðferðar á 6. áratug 20. aldar. Engin af þessum tillögum komst í gegnum þingið. Frumvarpið er nefnt eftir helsta stuðningsmanni breytinganna, John W. Bricker frá Ohio, sem var íhaldssamur repúblikani. Frumvarpið gekk út á að takmarka völd Bandaríkjaforseta til að skuldbinda Bandaríkin á alþjóðavettvangi án samþykkis þingsins.

Bandarískir lögskýrendur höfðu bent á að úrskurður dómara í málinu Missouri gegn Holland frá 1920 þýddi í reynd að Bandaríkjastjórn gæti breytt stjórnarskránni með samningum við önnur ríki. Íhaldssamir repúblikanar vildu með frumvarpinu loka fyrir þennan möguleika meðan frjálslyndari öfl flokksins sem studdu stjórn Dwight D. Eisenhower stóðu gegn breytingunni. Það voru einkum samningar sem gerðir voru á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í andrúmslofti Kalda stríðsins sem vöktu ótta hjá íhaldsmönnum. Síðasta útgáfa frumvarpsins fór fyrir öldungadeildina 1954 þar sem hún var felld. Þremur árum síðar úrskurðaði Hæstiréttur Bandaríkjanna í Reid gegn Covert að enginn alþjóðasamningur gæti falið í sér niðurfellingu Réttindaskrár Bandaríkjanna.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.